Upplýst samþykki vegna rannsóknar KSÍ og HR
Kæri foreldri/forráðamaður

Í janúar og febrúar 2021 munu tveir meistaranemar, í Íþróttavísindum og þjálfun við Háskólann í Reykjavík, fara um landið og framkvæma frammistöðumælingar á öllum knattspyrnuiðkendum á Íslandi sem fæddir eru árið 2005. Einnig mun meistaranemi í sálfræði við Háskólann í Reykjavík framkvæma mælingar á sálfræðilegum þáttum. Mælingarnar eru samstarfsverkefni milli Háskólans í Reykjavík og Knattspyrnusambands Íslands og snýr að uppbyggingu og framþróun á líkamlegri- og sálrænni getu íslenskra knattspyrnuiðkenda. Frammistöðumælingarnar eru þær sömu og gerðar hafa verið á kvennalandsliðum Íslands undanfarin ár. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum úr Felix skráningakerfi ÍSÍ og þjálfara viðeigandi liðs er barn þitt/í þinni forsjá skráður iðkandi í knattspyrnu og er fætt er árið 2005.

Þátttakendur munu framkvæma sex líkamleg próf sem hafa það markmið að meta líkamlega getu og sértæka færni knattspyrnuiðkenda sem fæddir eru árið 2005. Þátttakendur verða númeraðir í upphafi mælinga og mun númerið fylgja þátttakendum í gegnum mælingarnar. Þátttakendur fylgja staðlaðri upphitun sem stjórnað er af rannsakendum. Líkamlegu prófin sex sem framkvæmd verða af þátttakendum eru eftirfarandi:

• 5x30m Sprettur: Markmið prófsins er að meta hraðaþol þátttakandans. Þátttakandi hleypur eins hratt og mögulegt er 30 metra sprett, kemur sér til baka á upphafsreit og er tilbúinn fyrir næsta sprett á 30 sekúndum. Þetta ferli er endurtekið fimm sinnum. Þátttakandinn byrjar þegar hljóðmerki er gefið en eftir síðasta sprettinn þarf þátttakandinn ekki að koma sér til baka á upphafsreit. Tímahlið eru notuð til þess að mæla tímann sem það tekur þátttakandann að hlaupa 30 metra. Einnig er skráður millitími fyrir 10 metra í fyrsta sprettinum sem þátttakandinn hleypur en þannig er hröðun fyrir fyrstu 10 metra hlaupsins mæld.

• Spyrnuhraði: Markmið prófsins er að mæla skotkraft við framkvæmd vítaspyrnu annars vegar með hægri fæti og hins vegar með vinstri fæti. Hraðabyssu er komið fyrir fyrir aftan markið og er hún notuð til þess að meta hraða boltans eftir að boltanum er spyrnt frá vítapunkti.

• Líkamsmælingar: Markmið mælinganna er að kanna hæð og þyngd þátttakenda. Þátttakendur eru beðnir um að fara úr skóbúnaði áður en þeir stíga á vigtina. Vigtun og hæðarmæling fer fram samtímis.

• Lóðrétt viðbragðshopp (e.Countermovement jump (CMJ)): Markmið prófsins er að meta stökkhæð þátttakandans með tveimur aðferðum af countermovement hoppi. Þátttakandi kemur sér fyrir á stökkmottu í uppréttri stöðu. Þegar þátttakandi er tilbúinn beygir hann sig niður í hnébeygju og hoppar strax upp annars vegar með hendur á mjöðmum og hins vegar með lausar hendur. Þátttakandinn framkvæmir hoppin á stökkmottu sem notuð er til þess að meta kraftinn sem myndaður er í neðri útlimum við hoppið.

• Illinois snerpu próf (e.Illinois agility test): Markmið prófsins er að meta snerpu þátttakandans. Þátttakandinn á að hlaupa eins hratt og hann getur í gegnum brautina án þess að fella keilur. Tímahlið eru notuð til þess að meta hraða þátttakandans í gegnum brautina.

• YoYo þolpróf (YoYo intermittent endurance test level II): Markmið prófsins er að meta þol þátttakandans. Þátttakandinn hleypur braut sem er 20 metrar með 2,5m hvíldarsvæði. Hlaupið er fram og til baka eftir hljóðmerkjum áður en 5 sekúndna hvíld er nýtt á hvíldarsvæði. Hraði hlaupsins er stigvaxandi þar sem að tíminn til að hlaupa vegalengdina styttist þegar á líður prófið. Þátttakendi hleypur þar til hann getur ekki meir eða nær ekki að hlaupa vegalengdina á þeim tíma sem gefinn er.

Áætla má að líkamlegum prófin taki um 90 mínútur í framkvæmd. Eftir að þátttkandi hefur lokið framkvæmd á líkamlegum prófum mun þátttakandinn svara sex sálfræðiprófum sem eru eftirfarandi:

• Spurningalisti um sálræna færi (TOPS) er sjálfsmatslisti sem mælir sálfræðilega færni og notkun á hugrænum aðferðum/verkfærum íþróttafólks á meðan æfingum og keppni stendur. Listinn inniheldur 64 atriði sem skiptast niður í sjö flokka sem tilheyra bæði keppnis- og æfingaumhverfi (markmiðssetning, slökun, sjálfvirkni, virkjun, sjónmyndaþjálfun, sjálfstal og tilfinningastjórnun). Auk þess eru tveir flokkar sem tilheyra annað hvort keppnisumhverfi eða æfingaumhverfi; neikvæður þankagangur (keppni) og athyglisstjórnun (æfingar).

• Spurningalisti um kvíða í íþróttum (SAS-2) er sjálfsmatslisti sem mælir keppniskvíða íþróttafólks fyrir eða á meðan keppni stendur. Þegar listanum er svarað skal merkja við hversu vel ákveðnar fullyrðingar eiga yfirleitt við. Listinn greinir á milli undirþátta kvíða eins og líkamlegs kvíða, áhyggja og truflunar á einbeitingu.

• Spurningalisti um andlega hörku í íþróttum (SMTQ) er sjálfsmatslisti sem mælir hugræna þætti í íþróttum sem tengjast andlegri hörku (e. mental thoughness). Þegar listanum er svarað á einstaklingurinn að leggja mat á það hversu vel ákveðnar staðhæfingar eiga við hann. Þrír þættir eru metnir í listanum, sjálfsöryggi, stöðugleiki og stjórn.

• Spurningalisti um árangurshneigð í íþróttum (TEOSQ). Þessi sjálfsmatslisti metur hvernig einstaklingar skilgreina árangur í íþróttum eða hverju þeir eigna árangurinn. Þegar listanum er svarað skal leggja mat á hversu sammála svarandi er 13 útgáfum af fullyrðingunni „mér finnst ég hafa náð mestum árangri í íþróttum þegar...“.

• Spurningalisti um hvatningar-andrúmsloft innan liðs (PMCSQ) PMCSQ mælir hvernig íþróttafólk í liðsíþrótt metur andrúmsloftið í sínu liði. Einstaklingurinn svarar hversu sammála hann er ákveðnum fullyrðingum um andrúmsloftið í sínu liði, bæði í sambandi við liðsfélaga og þjálfara.

• Spurningalisti um áhugavöt í íþróttum (SMS-6). SMS-6 mælir áhugahvöt íþróttamanna. Listinn mælir hversu sterk innri og ytri áhugahvöt er sem og skort á áhuga.

Áætlað er að það taki þátttakendur um 25 mínútur að svara spurningalistunum. Spurningalistarnir verða aðgengilegir rafrænt og geta iðkenndur svarað spurningalistunum í gegnum snjallsíma. Við óskum því eftir að þátttakendur taki með snjallsíma ef þeir eiga slíka. Annars verða rannsakendur með Ipada tiltæka fyrir þá sem ekki eiga snjallsíma. Nemi mun aðstoða þátttakendur við að opna spurningakönnunina og svara spurningum sem þeir kunna að hafa.

Niðurstöður mælinganna verða aðgengilegar Knattspyrnusambandi Íslands sem mun nýta niðurstöðurnar til uppbyggingar og framþróunar á líkamlegri getu íslenskra knattspyrnuiðkenda. Niðurstöður mælinganna verða geymdar í öruggu tölvukerfi hjá Háskólanum í Reykjavík þar sem þær verða nýttar í meistaraverkefni rannsakenda og eru allar niðurstöður því aðgengilegar rannsakendum. Hver þjálfari mun fá aðgang að niðurstöðum sinna iðkenda úr líkamlegum prófum, liðsmeðaltal og landsmeðaltal til samanburðar. Fyrir sálfræði prófin fá þjálfarar niðurstöður um meðaltal síns liðs. Hver þátttakandi fær aðgang að öllum sínum niðurstöðum auk landsmeðaltals til samanburðar.

Ávinningur þátttöku í frammistöðumælingum á vegum Knattspyrnusambands Íslands og Háskólans í Reykjavík felur í sér grundvöll fyrir bættum líkamlegum árangri knattspyrnuiðkenda. Með endurtekningum á stöðluðum frammistöðumælingum verður til gagnagrunnur sem gefur Knattspyrnusambandi Íslands vísbendingu um stöðu þjálfunar á Íslandi á sama tíma og þær gefa þjálfurum hugmynd um hversu áhrifaríkar þjálfunaraðferðir þeirra eru. Með því að byggja þjálfun á niðurstöðum mælinganna má stuðla að jákvæðri framþróun í þjálfun og líkamlegri getu knattspyrnuiðkenda. Þátttaka í rannsókninni felur ekki í sér meiri áhættu eða erfiði en að mæta á æfingu eða spila keppnisleik.

Niðurstöður mælinganna verða geymdar í öruggum gagnagrunni í tölvukerfi Háskólans í Reykjavík. Þeir sem hafa aðgang að gögnunum eru rannsakendur HR (Íþróttafræðideild, Sálfræðideild og Tölvunarfræðideild) auk fulltrúa rannsóknar hjá KSÍ. Ef óskað er eftir því að gögnunum sé eytt skal senda tölvupóst á netfangið maelingar@ksi.is. Til þess að hver þátttakandi geti fengið sendan aðgang að sínum niðurstöðum þarf að fylgja virkt netfang foreldris/forráðamanns. Sendur verður tölvupóstur á það netfang með link og lykilorði inní forritið Datawell þar sem þátttakandi getur skoðað sínar niðurstöður.

Fullum trúnaði er heitið varðandi persónuupplýsingar og hefur þátttakandi rétt á að hætta þátttöku hvenær sem er í rannsóknarferlinu sé þess óskað.

Ábyrgðarmenn rannsóknarinnar eru Hafrún Kristjánsdóttir, Deildarforseti íþróttafræðideildar HR og Arnar Þór Viðarsson, Yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ.

Rannsakendur eru: Katrín Ýr Friðgeirsdóttir, Lára Hafliðadóttir og Grímur Gunnarsson
Ef þú hefur frekari spurningar er hægt að hafa samband með tölvupósti á netfangið: maelingar@ksi.is

Undirskrift barns, foreldris/forráðamanns og virkt netfang er forsenda þess að taka megi þátt í frammistöðumælingum á vegum Knattspyrnusambands Íslands og Háskólans í Reykjavík. Í upphafi mælinga skal rafrænt samþykki, undirskrift og virkt netfang liggja fyrir: www.ru.is/ksi

Með von um jákvæð og góð viðbrögð
Katrín Ýr Friðgeirsdóttir, Lára Hafliðadóttir og Grímur Gunnarsson
Meistaranemar KSÍ í MSc. Íþróttavísindum og þjálfun og MSc. í Klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík
Sign in to Google to save your progress. Learn more
Nafn barns *
Fyrstu 6 tölustafir í kennitölu *
Með hvaða liði æfir barnið *
Kyn *
Nafn foreldris/forráðamanns *
Tölvupóstfang foreldris/forráðamanns *
Ég hef lesið og skilið framangreindar upplýsingar og samþykki hér með þátttöku barns *
Submit
Clear form
Never submit passwords through Google Forms.
This content is neither created nor endorsed by Google. Report Abuse - Terms of Service - Privacy Policy