LungA listahátíð ungs fólks verður haldin í sitt síðasta sinn á Seyðisfirði dagana 15.-20. júlí 2024. Þema hátíðarinnar í ár er Spírall eða Hvirfill og vísar til sköpunargleðinnar, vina og stuðningsnets LungA yfir árin. Í ár fagnar hátíðin LungA fjölskyldunni, vinum og fyrrum þátttakendum. Að kveðjukossi verður boðið sérstaklega upp á þrjár fjölbreyttar og skemmtilegar listasmiðjur fyrir börn og ungmenni í von um að veita yngri kynslóðinni innblástur til áframhaldandi leik- og sköpunargleði á Seyðisfirði. Smiðjurnar eru eftirfarandi:
Froðufellir 10-14 ára
LungA kynnir Froðufelli, listasmiðju í umsjá tvíeykisins Töru & Sillu. Smiðjan er ætluð börnum og unglingum á aldrinum 10-14 ára. Heyrst hefur að undarleg vera sé á leið til sumardvalar á Seyðisfirði. Hver er þessi vera og hvaðan kemur hún?
Í listasmiðjunni munum við búa til verk um, í kringum og inn í froðuskúlptúr. Saman vinnum við okkur í gegnum hugmyndir, skissur, leiki og kynnumst allskonar aðferðum og efniviði. Áhersla verður lögð á að efla persónulega tjáningu og D.I.Y. (gera það sjálfur) vinnubrögð. Smiðjunni lýkur laugardaginn 20. júlí með opnun myndlistarsýningar á fjölskyldusvæði LungA.
Smiðjan mun fara fram dagana 15.-19. júlí 2024. Kennsla verður um það bil 15 klukkustundir sem dreifast yfir vikuna eftir verkefnum. Nánari dagskrá verður send á forrráðaaðila þegar nær dregur. Þátttökugjald er 25.000 kr. en innifalið í verðinu er þátttaka í smiðjunni, létt hressing og miði á tónleika LungA sem fer fram við Bláu kirkjuna laugardaginn 20. júlí.
Feminískt Reif 15-21 ára
LungA kynnir Feminískt Reif, listasmiðju fyrir ungmenni sem sækir innblástur sinn í reifmenningu og er feminísk útópía þar sem öll hafa frelsi til að tjá og hreyfa sig eins og þau vilja við tónlist að þeirra vali. Í vikulangri listasmiðju munu þátttakendur leika sér í dansi, DJ-tilraunum og sviðsmyndahönnun. Saman munu þau skapa nýtt dansverk, epískt reif þar sem öll upplifa sig örugg óháð kyntjáningu, dansstíl eða klæðaburði. Þátttakendur velja hvort þau vilja skrá sig í hlutverk dansara (15 pláss), plötusnúða (3 pláss) eða í leikmyndar-og hönnunarteymi (3 pláss). Fyrri reynsla er ekki skilyrði. Verkið verður svo frumsýnt fyrir gesti og gangandi í lok vikunnar. Leiðbeinendur smiðjunnar eru Anna Kolfinna Kuran, Ívar Pétur Kjartansson og Guðný Hrund Sigurðardóttir.
Smiðjan mun fara fram dagana 15.-19. júlí 2024. Þátttökugjald fyrir Seyðfirsk ungmenni er 45.000 kr. Innifalið í gjaldinu er smiðjan sjálf, þrjár máltíðir daglega og miði á tónleika LungA sem haldnir verða við Bláu kirkjuna laugardaginn 20. júlí. Þátttökugjald fyrir austfirsk ungmenni annarsstaðar að er 55.000 og almennt þátttökugjald er 75.000 kr. Í því gjaldi er innifalin að auki gisting í sameiginlegu rými eða á tjaldsvæði (18+). Nemendur ME og VA geta fengið þátttöku sína metna til 2 framhaldsskólaeininga.
Ef einhverjar spurningar vakna, endilega hafðu samband í halldora@lunga.is
- - -
For any questions that may arise, please contact halldora@lunga.is