Einu sinni voru bræður sem bjuggu að bænum Bakka í Svarfaðardal. Dag einn voru þeir á göngu uppi í fjalli. Þá sáu þeir heita laug og datt í hug að fara í fótabað. Þeir settust allir við laugina, fóru úr sokkum og skóm og settu fæturna í volgt vatnið. Þegar þeir höfðu setið nokkra stund ákváðu þeir að nú væri nóg komið og best að halda áfram ferðinni. En þegar þeir litu niður í laugina sáu þeir sex fætur sem voru nærri allir eins. Þeir urðu mjög hræddir og óttuðust að ruglast á fótum. Þeir sátu því og þorðu alls ekki að taka fæturna upp úr lauginni.
Loks sáu þeir mann koma gangandi. Þeir kölluðu í hann og sögðu honum frá vandræðum sínum og að þeir þekktu fæturna ekki í sundur. Maðurinn tók þá stafinn sinn og sló með honum í vatnið. Þá kipptu allir bræðurnir fótunum til sín og voru mjög ánægðir með að allir höfðu fengið sína fætur aftur. En maðurinn hélt áfram ferðinni og var hissa á því hvað bræðurnir voru miklir kjánar.