ÓMAR - hátíð fyrir ný íslensk hljóðfæri

Verksmiðjan Hjalteyri 29.júlí 2023

ÓMAR er ný hátíð fyrir tilraunakennd hljóðfæri.  Hátíðin var haldin fyrsta sinn árið 2022.  Samhliða hátíðinni er haldin ráðstefna fyrir hljóðfærahönnuði, tónskáld, myndlistarmenn og hljóðfæraleikara sem vilja þróa sínar eigin aðferðir óháð ríkjandi hefðum.

Listrænn stjórnandi Áki Ásgeirsson.

DAGSKRÁ

29.júlí kl 15:00-17:00  SAMSTEFNA/UMRÆÐUR

29.júlí kl 17:00-20:00 GRILL

29.júlí kl 20:00-22:00 TÓNLEIKUR

nánari upplýsingar: a k i @ a k i . i s

Samstarfsaðilar:

Intelligent Instruments Lab https://iil.is/ 

Verksmiðjan https://verksmidjanhjalteyri.com/omar 

S.L.Á.T.U.R. https://www.slatur.is 

============

https://verksmidjanhjalteyri.com/omar 

https://www.youtube.com/@omarfestival 

https://www.facebook.com/groups/1570004560049584 

Ómar er vettvangur fyrir listafólk sem vill móta sínar eigin leiðir í tónsköpun með nýjum hljóðfærum og nýjum aðferðum. Hátíðin á sér ekki hliðstæðu í íslensku tónlistarlífi og er því mikilvægur vettvangur fyrir tilraunir í tónsmíðum og hljóðfærasmíðum.

Ómar er samstarfsverkefni Verksmiðjunnar á Hjalteyri, Áka Ásgeirssonar, S.L.Á.T.U.R., Intelligent Instruments Lab sem starfrækt er í Listaháskóla Íslands.

Listamenn sem hafa unnið með nýja miðla og hljóðtækni í sínum verkum hafa tekið þátt í hátíðinni ásamt öðrum íslenskum og erlendum gestum.  Það er dýrmætt fyrir bæði sérhæfða og upprennandi hljóðlistamenn að fá rými til þróunar og innsýn í utanaðkomandi nýjungar.

Tilraunatónlist, hljóðlist og miðlalist þarfnast rýmis sem býður upp nýjar skilgreiningar og nýjar nálganir.  Verksmiðjan, sem er gömul síldarverksmiðja, smellpassar fyrir hátíðina og sömuleiðis er Hjalteyri kjörinn staðsetning.  Bærinn er í mikilli uppbyggingu, þar er nýr veitingastaður, hafnaraðstaða með hvalaskoðun, gistiheimili og ný tækifæri í menningarlífinu.

ÓMAR er eina íslenska listahátíðin sem er með áherslu á ný hljóðfæri.  Í ár verða kynntar nýjar útgáfur af íslensku langspili, sem gæti átt sér endurnýjun lífdaga.  Rafmagnslangspil, Proto-langspil, og hljómrænt "feedback" langspil búið gervigreind eru meðal hljóðfæra sem iiL (Intelligent Instruments Lab) munu koma með til Hjalteyrar.  

Hljóðfærahönnun og nýsmíði hljóðfæra er ekki hefðbundið fag, heldur tengist endurskoðun á hlutverki hljóðfærisins, nýrri tónfræði og tengingu við aðrar greinar, s.s. sviðslist og myndlist.  Tóngjörningar, hljóðinnsetningar og tímatengd myndlist á heima í þessu samhengi og hátíðin er opin fyrir ólíka þátttakendur, listamenn og áhorfendur þvert á aldur, kyn, búsetu og bakgrunn. Megin þráðurinn er nýsköpun á sem flestum sviðum tónlistar.  

Verksmiðjan á Hjalteyri hefur haldið uppi menningarstarfi í 15 ár og er kjörinn vettvangur fyrir hátíð af þessu tagi.  Byggingin sjálf er gríðarstór, með háa, steypta veggi, sem magna upp einstakan hljómburð.  Nafn hátíðarinnar, ÓMAR, endurspeglar þennan eiginleika verksmiðjunnar og einnig ákveðna ytri "ómun", í samhengi og samtali við nærsamfélagið, íslenska tónmenningu og erlend áhrif.  Endurómur felur í sér uppmögnun, speglun og endurskoðun.

Tilraunir í tónlist hafa ávallt verið mikilvægar fyrir framþróun lista, miðla og tækni. Nefna má hvernig Edison og Bell unnu samtímis að upptökutækni hljóðs og fjarskipta, eða hvernig Teleharmonium var fyrirrennari Spotify með streymandi tónlist. Aftur í aldir má sjá hljóðfæri sem tækni er breytir samfélögum og stuðlar að því að við tengjumst hvort öðru í gegnum tjáningu. Þetta hefur ekkert breyst og enn eru tónlistarmenn að þróa ný tæki, ný viðmót og gervigreind í gegnum ný hljóðfæri. Þessi hátíð fagnar hlutverki tónlistar á mörkum hins mögulega í tækni og skoðar hvernig greinar líkt og tónlist, verkfræði, sálfræði, tölvunarfræði og miðlafræði koma saman til að skilgreina mögulegar framtíðir.

Hér á landi hafa verið þróuð ýmis ný hljóðfæri og er hér fyrir neðan ófullgerður listi af ýmsum nýjum íslenskum hljóðfærum:

Halldórófónn

Airwaves-rör

Sleglaspil

Millistykkjaspil

LCD Harpa

Steinharpa

Wave

Segulharpa

Mírstrúment

Þyriltromma

Sóleyjarspil

Rangspil

Gígjur GSG

Þrenoskóp

Rafmagnslangspil

Strokharpa

Kliðharpa

Hulda

Proto-Langspil

Þránófónn

Veist þú um fleiri ný íslensk hljóðfæri?