Dagur B. Eggertsson

Borgarstjóri Reykjavíkurborgar

Ráðhúsi Reykjavíkur

Tjarnargata 11

101 Reykjavík

 

 

7. apríl 2020                                                                                              

 

Ályktun vegna yfirvofandi lokunar á Bíó Paradís

 

Nýkjörin stjórn Félags kvenna í kvikmynda- og sjónvarpsgerð, WIFT á Íslandi skorar á Menntamálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur og Borgarstjóra Reykjavíkur, Dag Bergþóruson Eggertsson að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir lokun menningarstofunarinnar Bíó Paradís.

 

Við teljum stofnunina gegna mikilvægu menningarlegu hlutverki þar sem hún er eina kvikmyndahúsið á Íslandi sem ekki er rekið í hagnaðarskyni, en stofnunin hefur það að markmiði að bjóða upp á sýningar á kvikmyndum frá öllum heimshornum, listrænar kvikmyndir, heimildamyndir og stuttmyndir, auk þess  að hýsa kvikmyndahátíðir af öllum stærðum og gerðum.

 

Einnig bendum við á það gríðarstóra hlutverk Bíó Paradísar að vera vettvangur fyrir frumsýningar á íslenskum kvikmyndaverkum, en húsið er eini vettvangurinn fyrir frumsýningar á óhefðbundum kvikmyndum, s.s. stutt- og heimildamyndum af minni gerðinni. Þetta er ómetanlegt fyrir grasrót kvikmyndanna og þjónar því mikilvæga hlutverki að vera stökkpallur fyrir frekari starfsframa á sviði kvikmyndalistar.

 

Ekki má heldur vanmeta hið mikilvæga starf sem í húsinu er unnið með grunnskólabörnum í því skyni að efla kvikmyndalæsi frá unga aldri.

 

Loks lítum við á mögulega lokun Bíó Paradísar sem stórt skref afturábak í baráttunni fyrir jöfnum hlut kynja í kvikmyndum á Íslandi. Því til rökstuðnings bendum við á, að eftirfarandi tölur blasa við þegar skoðað er hlutfall kvenna í framleiðslu á kvikmyndum í Hollywood árið 2019:

 

Konur í leikstjórastóli: 12%     Kvenhandritshöfundar: 20%

Tökukonur: 2%                       Kvenkyns tónskáld: 6%

Kvenframleiðendur: 26%        Kvenkyns klipparar: 23%

 

Það er ljóst að kvikmyndir framleiddar í Hollywood gefa ekki tilefni fyrir ungar stúlkur og drengi að áætla að konur hafi jöfn tækifæri á við karla til áhrifa eða starfa í kvikmyndum, en með lokun Bíó Paradísar yrði sú framleiðsla nánast það eina sem í boði væri fyrir bíógesti á Íslandi.

 

Til samanburðar má geta þess að kvikmyndir með kvenleikstjóra í brúnni voru 29% þeirra mynda sem fengu framleiðslustyrk hjá samevrópska sjóðnum Eurimage á árinu 2019. Markmið Eurimage er að sú tala fari upp í 50% á árinu 2020, en sjóðurinn er einn stærsti styrktaraðili samevrópskra kvikmynda.

 

 

 

 

 

 

 

Það er okkar mat að Reykjavík sé menningarlega auðug borg og að hér blómstri listir í sinni víðtækustu mynd. Ef borgaryfirvöld ætla að virða að vettugi eina menningarlega kvikmyndahús borgarinnar og leyfa því að viðgangast að það hafi ekki tök á að starfa vegna fjárskorts, þá er stórt skarð hoggið í þetta menningarlíf. Skarð sem erfitt verður að fylla í þar sem nú þegar hefur verið unnið hið mikilvæga uppbyggingar- og þróunarstarf sem felst í því að ýta slíku kvikmyndahúsi úr vör.

 

Við ályktum að það sé skylda Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Borgarstjórnar Reykjavíkur að átta sig á mikilvægi menningarlegs kvikmyndahúss og leggja til það rekstrarfé sem vantar þarf til að það geti starfað, sér í lagi í ljósi þess að stafrænir miðlar og kvikmyndir eru stærsti áhrifavaldurinn í lífi yngri og komandi kynslóða. Þá hefur núverandi ástand, á tímum Covid-19 heimsfaraldarins, sannað svo um munar mikilvægi menninga og lista á lífum okkar og þeim mun brýnni nauðsyn á að styðja við rekstur Bíó Paradísar og viðlíka stofnana.

 

 

Stjórn WIFT á Íslandi,

 

Anna Sæunn Ólafsdóttir              

Helena Stefáns Magneudóttir

María Lea Ævarsdóttir                

Silla Berg

Þórey Mjallhvít Heiðar- og Ómarsdóttir