Published using Google Docs
Foreldrahandbók Álfaborgar 2024
Updated automatically every 5 minutes

 

Foreldrahandbók

 

 

 

 

 

Leikskólinn Álfaborg
Svalbarðseyri
Sími: 464-5505
Netfang:
alfaborg@svalbardsstrond.is
Heimasíða: skolar.svalbardsstrond.is

Efnisyfirlit

Álfaborg        3

Áherslur og hugmyndafræði        3

Frjáls leikur        4

Uppbyggingarstefnan        4

Vináttuverkefni Barnaheilla – Blær        4

Samstarf Álfaborgar og Valsárskóla        4

Samstarf heimilis og skóla        5

Upplýsingastreymi        5

Foreldraviðtöl        5

Þagnarskylda        6

Vernd barna og ungmenna        6

Að byrja í leikskóla        6

Aðlögun        6

Mötuneyti        7

Matartímar        7

Hlaðborð        7

Sérstakar óskir um mataræði        8

Hagnýtar upplýsingar        8

Klæðnaður        8

Bleyjur        8

Hvíld og róleg slökun        8

Óhöpp og slys        9

Veikindi        9

Lyfjagjafir í leikskólanum        9

Myndatökur        9

Tækni/skjátími        10

Sumarfrí        10

Skipulagsdagar starfsfólks        10

Að koma og fara        10

Uppsögn og breyting á dvalartíma        10

Siðir og venjur        11

Afmæli barnanna        11

Dagur leikskólans        11

Þorrablót        11

Bollu- sprengi- og öskudagur        11

Dagur íslenskrar tungu        11

Hjóladagar        12

Foreldrakaffi        12

Ömmu- og afa kaffi        12

Jólahefðir        12

Uppbrotsdagar        12

Sérfræðiþjónusta        12

Námsmat/skimanir        13

Iðjuþálfun í leik- og grunnskóla        13

Nefndir og ráð        13

Foreldrafélag leikskólans        13

Skólaráð        14

Skólanefnd        14


Ágætu foreldrar/forráðmenn

Við viljum bjóða ykkur og barnið/börnin velkomin í leikskólann Álfaborg. Fyrstu dagarnir í leikskólanum er mikilvægur tími fyrir barnið til að aðlagast nýjum aðstæðum. Góð samvinna við foreldra er mjög mikilvæg þannig að barnið fái notið leikskóladvalarinnar eins og kostur er.

Við vonumst til að þetta sé góður leiðarvísir svo þið getið aflað ykkur upplýsinga og kynnst betur starfsemi leikskólans.

Með von um gott samstarf
Starfsfólk leikskólans Álfaborgar

Álfaborg

Leikskólinn Álfaborg er tveggja deilda leikskóli staðsettur á Svalbarðseyri sem starfar eftir lögum um leikskóla frá 2008 og Aðalnámskrá leikskóla frá 2011. Starfsemi leikskólans hófst 15. mars 1993 og að öllu jöfnu eru um 40 nemendur samtímis í leikskólanum. Leikskólinn er fyrir nemendur frá 12 mánaða til grunnskólaaldurs. Starfið fer fram á tveimur deildum, Hreiðri og Lundi. Einkunnarorð leikskólans eru umhyggja, virðing, metnaður og gleði.

Leikskólinn er opinn frá kl. 7:45-16:15 virka daga og hægt er að sækja um vistun á þeim tíma eins og hentar hverjum og einum.

Leikskólastjóri Álfaborgar er Bryndís Hafþórsdóttir, hægt er að hafa samband við hana í síma 464-5505 eða senda tölvupóst á bryndis@svalbardsstrond.is.
Staðgengill skólastjóra er Sigurbjörg Ósk Jónsdóttir.

Áherslur og hugmyndafræði

Í leikskólastarfinu er lögð áhersla á Uppbygginarstefnuna, Vináttuverkefni Barnaheilla – Blær og frjálsan leik. Auk þess er samstarf við Valsárskóla okkar sérkenni.

Frjáls leikur

Við leggjum upp með að hafa góðan tíma og gott rými fyrir frjálsan leik. Leikurinn er einn af náms- og þroskaleiðum barnsins en í frjálsum leik á leikurinn að vera sjálfsprottinn og skapandi. Í gegnum leikinn æfast börnin í félagslegum reglum, samskiptum og viðeigandi hegðun og efla þroskann. Allir utanaðkomandi þættir hafa áhrif á leikinn og hann þróast í samræmi við það.

Uppbyggingarstefnan

Uppbyggingarstefnan, Uppeldi til ábyrgðar – uppbygging sjálfsaga, er stefna sem felur í sér að kenna börnum sjálfsstjórn og sjálfsaga. Aðferðin ýtir undir ábyrgðarkennd og að börn átti sig á styrkleikum sínum og þörfum. Einnig er áhersla á að þau læri af mistökum sínum og nýti reynsluna á jákvæðan hátt. Stefnan er einnig verkfæri fyrir starfsfólk skólans í samskipta og agamálum.
Lesa má nánar um Uppbyggingarstefnuna á vefsíðunni,
https://uppbygging.is/

Vináttuverkefni Barnaheilla – Blær

Markmiðið með þessu verkefni er að fyrirbyggja einelti með því að móta góðan skólabrag, eiga góð samskipti og hafa jákvæð viðhorf til allra í hópnum. Við kennum börnunum okkar að vera góður félagi og sýna vináttu, umhyggju virðingu og hugrekki. Öll börn í leikskólanum fá sinn eigin bangsa, Blæ, til að hafa í leikskólanum. Lesa má nánar um Blæ hér: https://www.barnaheill.is/is/forvarnir/vinatta 

Samstarf Álfaborgar og Valsárskóla

Á milli skólanna er fjölbreytt samstarf, nemendum á elsta stigi Valsárskóla stendur til boða að velja leikskólann sem val og koma þá tveir til þrír nemendur tvisvar í viku og eru með í frjálsum leik eftir hádegi. Nemendur Álfaborgar hafa aðgang að íþróttasal Valsárskóla einu sinni í viku og er sá tími nýttur í allskonar æfingar og leiki.

Í leikskólanum er Krumma hópur þau börn sem eru á seinasta ári í leikskólanum og er samstarf við Valsárskóla um heimsóknir barnanna þangað. Einu sinni í viku yfir veturinn fer hópurinn yfir í Valsárskóla og er heilan skóladag með 1. bekk, íþróttir og handmennt er meðal þess sem þau gera þar. Þau borða bæði morgunmat og hádegismat í skólanum en tilgangurinn með þessum degi er að börnin kynnist umhverfi skólans, starfsfólki hans, nemendum og öðlist öryggi. Auk þess fara Krummarnir með 1. og 2. bekk í útiskóla aðra hverja viku.

Samstarf heimilis og skóla

Í  Álfaborg er mikil áhersla lögð á gott samstarf við foreldra. Foreldrar/forráðamenn bera frumábyrgð á uppeldi barna sinna en leikskólastarfið er viðbót við það uppeldi sem börnin fá á heimilum sínum. Samstarf foreldra og leikskóla er mikilvægur liður í velferð barnanna. Sum börn dvelja stóran hluta dagsins í leikskólanum, því er nauðsynlegt fyrir starfsfólkið að vita um líðan barnsins og venjur heima fyrir. Í leikskólanum er borin virðing fyrir tíma foreldra og barna og mikilvægi samveru þeirra.

Upplýsingastreymi

Lagt er upp með að hafa gott upplýsingastreymi á milli heimilis og leikskóla. Deildarstjóri hverrar deildar sendir reglulega út tölvupóst en þar koma fram upplýsingar um komandi viku og aðrar fréttir. Mánaðarlega er gefið út mánaðarskipulag með helstu viðburðum sem eru framundan ásamt afmælisdögum barna. Mánaðarskipulagið er sett á heimasíðu skólans og sent í tölvupósti á foreldra í byrjun mánaðar ásamt matseðli.

Karellen kerfið heldur utan um mætingu, svefn, matseðla, hvernig börnin borða, auk þess er það notað til að senda skilaboð. Ef barnið kemur ekki í leikskólann vegna veikinda eða annarra ástæðna væri gott ef foreldrar/forráðamenn skrái það í Karellen eða láta okkur vita með öðrum leiðum. Nánari upplýsingar um Karellen kerfið má nálgast á vefsíðunni www.karellen.is 

Foreldraviðtöl

Við viljum að foreldrar/forráðamenn finni sig ávallt velkomna í leikskólann og leggjum áherslu á góð samskipti og þátttöku foreldra í starfi leikskólans. Boðið er upp á foreldrasamtöl á vorönn, en foreldrum er velkomið að biðja um samtal oftar ef þeir vilja. Í foreldraviðtölum er spjallað um líðan barns og foreldra/forráðamanna ásamt því að fara yfir þær skimanir sem leikskólinn gerir, en leikskólinn fylgist vel með þroska barnsins. Foreldrafundur er haldinn að hausti, þar sem vetrarstarfið er kynnt og foreldrafélagið heldur sinn aðalfund.

Þagnarskylda

Vert er að geta þess að starfsfólk leikskólans er bundið þagnarskyldu. Allar upplýsingar sem gefnar eru um barnið eru trúnaðarmál, þagnarskyldan er í gildi þó starfsmaður láti af störfum. Þagnarskylda starfsfólks leikskóla nær ekki til atvika sem ber að tilkynna um lögum samkvæmt. Enn fremur bendum við á að foreldrum er ekki heimilt að tala um það sem þeir upplifa eða heyra sjálfir í leikskólanum varðandi önnur börn, fjölskyldur þeirra eða starfsfólk.

Vernd barna og ungmenna

Leikskólinn starfar eftir lögum nr. 80/2002 um vernd barna og ungmenna. Þar segir í 16. og 17 gr. frá tilkynningarskyldu þeirra sem afskipti hafa af börnum og ungmennum.

Að byrja í leikskóla

Aðlögun

Leikskóladvöl barna hefst með aðlögun, mikilvægt er að góð samvinna sé á milli leikskólans og foreldra og að gagnkvæmur trúnaður ríki. Í aðlöguninni er lagður grunnur að frekara samstarfi milli starfsfólks og foreldra.

Við upphaf leikskóladvalar gefa foreldrar/forráðamenn upplýsingar um barnið og fjölskylduaðstæður. Mikilvægt er að foreldrar/forráðamenn láti vita ef einhverjar breytingar verða, svo sem breytt heimilisfang, símanúmer eða ef fjölskylduaðstæður barnsins breytast, eða annað það sem getur haft áhrif á líðan barnsins og gott væri fyrir starfsfólk að vita.

Aðlögunin fer þannig fram að við nýtum okkur aðferð þáttökuaðlögunar sem byggir á hugmyndafræðinni um öruggir foreldrar/forráðamenn = örugg börn. Hún fer þannig fram að foreldrar/forráðamenn eru með barninu sínu í leikskólanum í fjóra daga. Frá 9.00 til 11.00 fyrsta daginn, frá 8:00 til 14:00 annan daginn, 8:00 til 15:00 þriðja daginn og allan vistunartímann fjórða daginn. Á fimmta degi kemur barnið í leikskólann og kveður foreldra sína. Foreldrar/forráðamenn sinna sínum börnum þennan tíma, skipta um bleyju og gefa þeim að borða, leika við þau og eru til staðar. Starfsfólkið sinnir einnig börnunum, kynnist þeim og foreldrum þeirra, einstaka barn þarf lengri aðlögunartíma og er tekið tillit til þess.

Mötuneyti

Matartímar

Í morgunmat er boðið upp á hafragraut og lýsi ásamt Cheerios og koddum. Á föstudögum er boðið upp á ristað brauð í stað hafragrauts. Foreldrar/forráðamenn eru beðnir um að koma með barnið ekki seinna en 8:30 ef það á að borða morgunmat hjá okkur.

Um kl. 9:30 er ávaxtastund.

Í hádeginu er ýmist fiskur, kjöt, grænmetisréttir, pastaréttir, súpur eða grautar. Grænmeti er alltaf með máltíðum.

Í nónhressingu er boðið upp á brauð, hrökk kex og ávexti.

Hlaðborð

Á Lundi borða börnin saman. Hlaðborð í matsal getur skapað margþætta möguleika, til dæmis er hægt að bjóða upp á fjölbreyttari mat en annars. Hlaðborð getur einnig aukið sjálfstraust með því að stuðlað er að valdeflandi aðstæðum fyrir börn þar sem þeim gefst tækifæri til að velja sjálf, hvað af matnum þau vilja borða og setja sjálf á diskinn. Sérhvert barn setur þannig saman eigin máltíð. Börnin læra að bera virðingu fyrir mat, læra að þekkja magamál sitt og taka tillit til annarra.

Sérstakar óskir um mataræði

Þegar um ofnæmi, óþol eða aðra þætti er að ræða og barnið þarf á sérfæði að halda skal skila vottorði frá heimilislækni vegna séróska til leikskólastjóra. Allar ákvarðanir varðandi mat mötuneytis skólanna þurfa að fara í gegnum leikskólastjóra sem svarar öllum fyrirspurnum sem kunna að vakna um málið. Til að tryggja öryggi þeirra sem hafa bráðaofnæmi þá er ekki leyfilegt að koma með nesti að heiman

Hagnýtar upplýsingar

Klæðnaður

Klæðnaður barnanna þarf að vera í samræmi við veðurfar og greinilega merktur. Í forstofu er karfa fyrir hvert barn ætluð aukafötum en foreldrar/forráðamenn þurfa að fylgjast með því að í þeim sé allt sem til er ætlast. Á körfunni er listi yfir fatnað sem þarf að vera til staðar. Vegna plássleysis í forstofu biðjum við foreldra að nota frekar körfurnar en töskur. Tæma þarf hólfin á föstudögum svo hægt sé að þrífa þau en ekki er þörf á að tæma körfurnar.

Bleyjur

Foreldrar/forráðamenn þurfa að koma með bleyjur fyrir börnin en aðrar hreinlætisvörur eru til staðar í leikskólanum.

Hvíld og róleg slökun

Klukkan 12 fara öll börn í hvíld eða rólega slökun sem er 30 mínútur. Maríuerlur, Þrestir, Lóur og Spóar fara öll í hvíld en Krummar hafa val um hvíld eða rólega stund. Börnin á Hreiðri koma með vagnana sína og sofa úti, lengd svefns fer eftir börnum og óskum foreldra/forráðamanna. Börnin sem fara í hvíld á Lundi fá teppi og kodda í leikskólanum og mega koma með snuð og einn bangsa. Best er að hafa sama bangsann alla vikuna.

Óhöpp og slys

Í  barnahópi geta alltaf orðið óhöpp eða slys. Ef slíkt kemur fyrir er strax haft samband við foreldra og hringt á sjúkrabíl ef talin er þörf á því. Athygli er vakin á því að Svalbarðsstrandarhreppur greiðir kostnað vegna fyrstu ferðar á slysadeild ef um slys eða læknisheimsókn er að ræða á leikskólatíma.

Veikindi

Leikskólinn er ætlaður frískum börnum og er almennt sú regla að ekki er hægt að hafa börn inni eftir veikindi. Börnin skulu vera heima í að minnsta kosti 1-2 sólahringa hitalaus áður en þau koma aftur í leikskólann.

Lyfjagjafir í leikskólanum

Almenn regla:
Lyf eru ekki gefin í leikskólanum nema læknir meti það svo að tímasetningar lyfjagjafar þurfi að koma inn á leikskólatíma.

Undantekningar:
Þetta gildir ekki um sykursýkis-, astma- eða ofnæmislyf eða önnur lyf sem eru barni lífsnauðsynleg. Ef börn eru með stöðuga lyfjagjöf vegna langvarandi sjúkdóma þarf að hafa samband við deildarstjóra og/eða leikskólastjóra og gefa skriflegar upplýsingar.

Lyf í skemmri tíma:
Mjög sjaldgæft er að gefa þurfi lyf oftar en þrisvar á dag. Þegar lyf er gefið þrisvar á dag má í flestum tilfellum gefa miðskammtinn þegar heim er komið. Ef læknir gefur fyrirmæli um að gefa þurfi miðskammtinn á skólatíma verða foreldrar/forráðamenn að ræða við deildarstjóra og koma með skammtinn klárann.

Myndatökur

Í leikskólanum eru reglulega teknar myndir af börnunum á síma í eigu leikskólans og þær sendar á foreldra með tölvupósti. Foreldrum og öðrum er bannað að taka myndir í skólanum, nema með sérstöku leyfi.

Tækni/skjátími

Í starfinu er notuð ýmis tækni en í Aðalnámskrá leikskóla er komið inn á að skapa eigi tækifæri í starfinu til að læra á stafræna miðla á hagnýtan hátt í leikskólanum. Í leikskólanum eru I-padar með kennslufræðilegum forritum sem eru í vali stöku sinnum, 20 mín í senn. Yfir vetrartímann er skjár notaður til þess að sýna t.d. myndbönd og annað í kennslufræðilegum tilgangi. Einstaka sinnum er bíó og þá er foreldrum tilkynnt hvað var horft á.

Sumarfrí

Hvert barn skal fara í að minnsta kosti fjögurra vikna samfellt sumarfrí. Skólanefnd Svalbarðsstrandar ákveður sumarlokun fyrir hvert sumar.

Skipulagsdagar starfsfólks

Fimm daga á ári er leikskólinn lokaður vegna skipulagsdaga. Þessir dagar eru notaðir til endurmenntunar starfsfólks og til að undirbúa uppeldisstarf leikskólans, einnig til að endurmeta það starf sem unnið hefur verið. Þessir dagar eru settir inn á skóladagatal leikskólans og auglýstir með góðum fyrirvara.

Að koma og fara

Það er öryggisatriði fyrir starfsfólk og ekki síst barnið að foreldrar/forráðamenn láti ávallt vita þegar komið er með barnið eða það sótt. Foreldrar/forráðamenn geta alltaf hringt í leikskólann til þess að spyrjast fyrir um líðan barnsins, eins mun starfsfólk leikskólans hringja ef eitthvað sérstakt kemur upp á. Ef aðrir en foreldrar/forráðamenn koma að sækja barnið er mikilvægt að láta starfsfólkið vita af öryggisástæðum.

Börnum yngri en 12 ára er ekki heimilt að sækja börn í leikskólann.

Uppsögn og breyting á dvalartíma

Uppsagnafrestur á leikskólaplássi er einn mánuður og miðast við 1. og 15. hvers mánaðar, uppsögn þarf að vera skrifleg og er hægt að fá eyðublöð hjá skólastjóra, einnig þegar börnin hætta vegna aldurs. Breytingar á dvalartíma er nauðsynlegt að sækja um fyrir 20. hvers mánaðar, á þar til gerðu eyðublaði. Breytingar miðast við mánaðamót og skulu gilda eigi skemur en þrjá mánuði.

Leikskólagjöld eru greidd eftir á, í byrjun næsta mánaðar og er sendur út greiðsluseðill. Töflu með upplýsingum um gjaldskrá leikskólans má finna á heimasíðu leikskólans.

Siðir og venjur

Afmæli barnanna

Afmælisdagur barnsins er haldinn hátíðlegur, barnið býr sér til kórónu og samverustund dagsins er tileinkuð afmælisbarninu. Barnið fær einnig að velja sér afmælisglas til að hafa í matartímum. Við biðjum foreldra um að koma ekki með boðskort í afmæli í leikskólann.

Dagur leikskólans

Dagur leikskólans er 6. febrúar og er tilgangur hans að kynna leikskólastarfið og skapa jákvæða umræðu. Í tilefni dagsins er bryddað upp á einhverju skemmtilegu.

Þorrablót 

Á þorranum er þorramatur borðaður í leikskólanum og rætt um gamla tíma og gamlar hefðir.

Bollu- sprengi- og öskudagur

Á þessum dögum höldum við í hefðir og borðum bollur, saltkjöt og baunir og á öskudaginn mega börnin koma í öskudagsbúning og við höldum öskudagsball. Þrír elstu árgangarnir fara í göngutúr um þorpið og syngja á nokkrum stöðum fyrir góðgæti.

Dagur íslenskrar tungu

16. nóvember ár hvert er dagur íslenskrar tungu. Þann dag sem og aðra daga leggjum við áherslu á íslenskt mál.

Hjóladagar

Yfir sumarið eru hjóladagar einu sinni í viku. Þá mega börnin koma með hjólin sín og hjálma að heiman, þeir sem koma ekki með hjálm geta ekki fengið að hjóla.

Foreldrakaffi

Einu sinni á ári, að vori, bjóða börnin foreldrum sínum í heimsókn, þá fá foreldrar/forráðamenn tækifæri til að kynna sér það sem verið er að vinna með hverju sinni.

Ömmu- og afa kaffi

Einu sinni á ári, að hausti, bjóða börnin ömmum sínum og öfum í heimsókn, þá fá ömmur og afar tækifæri til að kynna sér það sem verið er að vinna með hverju sinni.

Jólahefðir

Boðskapur jólanna fléttast inn í starf desembermánaðar. Við föndrum, hlustum á jólalög og syngjum saman. Litlu jólin eru haldin í leikskólanum þar sem við borðum jólamat. Mikil áhersla er lögð á að skapa rólegt og notalegt andrúmsloft og njóta hátíðarinnar.

Uppbrotsdagar

Það eru uppbrotsdagar á föstudögum yfir veturinn, þeir eru ákveðnir hvern mánuð fyrir sig og sjást á mánaðarskipulagi. Uppbrotsdagarnir geta verið þeir sem eru nefndir hér fyrir framan en einnig eru það t.d. þemadagar, sveitaferð, göngutúrar, bókabíó, rugludagur og fleiri.

Sérfræðiþjónusta

Börn og foreldrar/forráðamenn í Álfaborg hafa aðgengi að sérkennara og iðjuþjálfa sem sinnir einnig starfi tengiliðs farsældar. Auk þess er samningur í gildi við fræðslu- og lýðheilsuráð Akureyrarbæjar varðandi einstaklingsþjónustu, þ.e. vegna barna sem þurfa aðstoð. Auk þess er samningur við talmeinafræðing sem kemur í leikskólann að jafnaði einu sinni í mánuði. Sé ástæða til að sækja um slíka þjónustu er það gert í samráði við deildarstjóra, leikskólastjóra og/eða iðjuþjálfa.

Námsmat/skimanir

Það námsmat sem leikskólinn fer eftir og skimanir sem eru gerðar eru eftirfarandi:

Iðjuþálfun í leik- og grunnskóla

Iðjuþjálfi notar heildræna nálgun í starfi með börnum og er sérfræðingur í iðju. Iðjuþjálfi kemur m.a. að hreyfigetu, sjálfstjórn, fín- og grófhreyfingum og skynúrvinnslu barna.

Iðjuþjálfi sinnir mati og íhlutun nemenda og veitir ráðgjöf til foreldra, kennara og stjórnenda. Iðjuþálfi vinnur alltaf í samvinnu við barn, foreldra og aðra fagaðila sem koma að málefnum barnsins. Í Álfaborg og Valsárskóla starfar iðjuþjálfi einnig sem tengiliður þjónustu í þágu farsældar barns fyrir bæði skólastigin.

Nefndir og ráð

Foreldrafélag leikskólans

Við leikskólann er starfandi foreldrafélag, en það stendur fyrir ýmsum viðburðum, s.s. sumarhátíð, jólaföndri og jólaballi. Í stjórn foreldrafélagsins eru þrír fulltrúar, formaður, gjaldkeri og ritari, þeir eru kosnir á aðalfundi að hausti. Einnig eru kosnir tveir varamenn. Allir foreldrar/forráðamenn eru sjálfkrafa í félaginu þegar barnið hefur leikskólagöngu og greiða gjald, foreldrafélagið innheimtir gjald mánaðarlega með leikskólagjöldum.

Skólaráð

Við leikskólann Álfaborg og grunnskólann Valsárskóla starfar sameiginlegt skólaráð en samkvæmt reglum situr að lágmarki eitt foreldri frá Álfaborg í ráðinu, skal kosning til skólaráðs fara fram að hausti á ári hverju og kosið til eins árs í senn. Hlutverk skólaráðsins er að fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Skólaráð hefur umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á skólastarfi í sveitarfélaginu.

Skólanefnd

Skólanefnd Svalbarðsstrandarhrepps fer með yfirstjórn leikskólans í umboði sveitarstjórnar, í henni sitja Árný Þóra Ágústsdóttir (formaður), Hanna Sigurjónsdóttir og Vilhjálmur Rósantsson. Auk þess sitja fundina skólastjórar Álfaborgar og Valsárskóla, áheyrnarfulltrúar foreldra og starfsfólks úr báðum skólum. Áheyrnarfulltrúi foreldra Álfaborgar er Hafrún Helga Arnardóttir og fulltrúi starfsfólks Álfaborgar er Sigríður Guðmundsdóttir.

Að loknum lestri þessarar handbókar vakna eflaust margar spurningar um starfsemi leikskólans. Þar sem svona handbók getur aldrei orðið tæmandi, hvetjum við foreldra til að spyrja og ræða við okkur um óljós atriði.

Yfirfarið í september 2024
Ábyrgðarmaður: Bryndís Hafþórsdóttir, leikskólastjóri