Published using Google Docs
GND-021 Guð er ekki dáinn - útdráttur
Updated automatically every 5 minutes

Sönn trú er ekki blind

Trú og rök eru ekki óvinir

Einhverra hluta vegna er sá skilningur við lýði að trúað fólk sé hrætt við að fást við þær erfiðu spurningar sem trú getur vakið upp. Sú mynd er dregin upp að trúuðum verði að hlífa við öllum andstæðum skoðunum og „þeir hætti bara að spyrja spurninga“.

Joe Marlin, læknir og doktorsnemi við New York-háskóla og trúleysingi, hafði lesið The God Delusion eftir Dawkins og margar aðrar bækur sem leitast við að hrekja trú á Guð. Hann sagði mér í viðtali að stundum hefði hann verið „herskár“ í trúleysi sínu. „Sérstaklega þegar einhver „þakkaði Guði“ fyrir eitthvað. Mér fannst eins og verið væri að gefa Guði heiðurinn af einhverju sem manneskja hafði í raun áorkað.“ Hann lýsti ferlinu við að byrja að efast um trúleysi sitt og að hitta stöðugt trúaða manneskju og fást á opinskáan og hlutlægan hátt við spurningar sínar. Hann sagði: „Rök leiddu mig í rauninni til Guðs en beindu mér ekki frá honum.“

Þegar eitthvað gerist sem við skiljum ekki, þá er það að segja að þetta séu „órannsakanlegir vegir Guðs“ ekki það sama og að snúa bakinu gegn rökum og samþykkja í blindni allt í nafni trúarinnar. Ef fullur ökumaður banar saklausri fjölskyldu þá spyrjum við, af hverju gerðist þetta? Rökrétta svarið væri að þetta gerðist vegna þess að einhver var kærulaus og ók bíl ólöglega á meðan hann var ófær um það og dauði saklauss fólks var afleiðing þess. En stóra spurningin er, hvers vegna lét Guð þetta gerast? Gæti hann ekki hafa komið í veg fyrir þetta? Við heyrum sögur af guðlegum inngripum en hvers vegna gerðist það ekki í þessu tilviki? Þegar við skírskotum til leyndardóma þá erum við einfaldlega að viðurkenna að það er margt til sem við vitum ekki. Það er alls ekki sammerkt með því að við lifum í uppgjöf fyrir forlögunum. Við ættum að leitast við að fá svör við þessum stóru spurningum. Oft er hinn raunverulegi leyndardómur falinn í að skilja ástæður þess sem liggja að baki því að fólk gerir það sem það gerir.

Í næsta kafla verður fjallað nánar um hið illa og þjáninguna og sú erfiða spurning, hvers vegna slæmir hlutir komi fyrir, verður rædd.

Trú er afurð þess að hugsa

Trú felur í sér rök, að muna og rannsaka eða læra. Trú er heilmikil vinna. Við verðum að standa skil á okkar hluta til að skilja hverju Guð er að lofa, skilja forsendur þessara loforða, rifja upp sannanir fyrir trúfesti hans áður fyrr og halda í sannfæringu okkar um þetta án þess að skeyta um hvikular tilfinningar okkar, eins og C.S. Lewis stakk upp á:

Þegar ég var trúleysingi þá datt ég stundum í þá duttlunga að finnast kristni vera hræðilega sennileg. Þessi uppreisn duttlunganna gegn sjálfinu kemur hvort sem er. Þess vegna er trú svo nauðsynlegur kostur: nema duttlungunum sé kennt að halda sig á mottunni þá verður maður hvorki heill kristinn einstaklingur né almennilegur trúleysingi heldur einungis rekald sem hrekst til og frá, með trú sem stjórnast af veðurlaginu og magastarfseminni.

Með þessu er Lewis að segja að trú sé í raun að halda sér við þá niðurstöðu sem rökhyggjan hefur leitt mann að, þrátt fyrir hverfula duttlunga. Þetta er nánast í beinni andstöðu við þá mynd af trú sem vantrúarmenn setja fram. Við erum kölluð til að elska Guð af öllu hjarta okkar og mætti. Þegar við leggjum okkur fram við að skilja, sækjast eftir visku, rannsaka allt og halda fast við það sem er satt, þá rötum við á rétta veginn og tökum skynsamlegar ákvarðanir um líf okkar og umheim.

Trú felur í sér þrjá lykilþætti

Trú er grundvöllur allra okkar sambanda hvert við annað og við Guð. Í hjónabandi þá heitum við annarri manneskju tryggð, trúmennsku okkar. Hjúskaparbrot er þess vegna kallað ótryggð. Viðskipti eru byggð á trausti. Tveir aðilar komast að samkomulagi og skuldbinda sig með samningi um að uppfylla ýmsar skyldur. Hvort sem um er að ræða hjónaband eða viðskiptasamband þá eru þrír lykilþættir að trú:

  1. Þekking: smáatriði samkomulagsins

Guð kaus að eiga samskipti við okkur með orðum. „Í upphafi var Orðið,“ er byrjunin á Jóhannesarguðspjalli. Þekking á Drottni eru þær upplýsingar sem hann ákvað að koma með til jarðarinnar. Sú þekking er undirstaða trúar okkar. Þegar faðir minn sagði mér að hann hefði keypt handa mér bíl eftir að ég útskrifaðist úr háskóla trúði ég honum án þess að hafa séð bílinn. Grundvöllur trúar minnar var loforð hans. Þessa þekkingu er ekki aðeins að finna í ritningunni (sjá 8. kafla) heldur einnig í náttúrunni:


Himnarnir segja frá Guðs dýrð,
festingin kunngjörir verkin hans handa.
Hver dagur kennir öðrum
og hver nótt boðar annarri speki.
Engin ræða, engin orð,
ekki heyrist raust þeirra.

Þó berst boðskapur þeirra um alla jörð
og orð þeirra ná til endimarka heims.

(Slm 19:1-5)

 

Guð vill að þú þekkir hann. Sú þekking kemur ekki aðeins í gegnum ritninguna heldur er hún einnig fólgin í þeim sönnunargögnum sem heimurinn sem hann skapaði birtir. Það sem vitað er um Guð má skynja og sjá af verkum hans. (Róm 1:20)

  1. Samþykki: vilji til að gangast undir samkomulag

Samþykki er afleiðing rökfærslu. Eftir að hafa íhugað fyrirheiti og vegið og metið staðreyndir sem renna stoðum undir tilteknar fullyrðingar þá getum við komist að niðurstöðu sem er afleiðing íhugunar og umhugsunar um málið. Samþykkishliðin er þýðingarmikil því að Guð hefur gefið manninum réttinn til að velja sjálfur, þess vegna verður valið að vera heiðarlegt og óþvingað. Guð vill ekki að fólk geri neitt gegn vilja sínum. Þú verður, hins vegar, að þrá að þekkja hann og eiga samband við hann. „Ég kveð bæði himin og jörð til vitnis gegn ykkur í dag: Ég hef lagt fyrir þig líf og dauða, blessun og bölvun. Veldu þá lífið svo að þú og niðjar þínir megið lifa.“ (5Mós 30:19)

  1. Traust: trú á að báðir aðilar geri það sem þeir segjast ætla að gera

Þannig traust er ekki blint. Það er byggt á þekkingu og sönnunum sem sýna að aðilinn sem lofar einhverju er traustsins verður.

Hversu mikilvægt er þetta Guði? Það er grundvallarmerki um sanna trú á hann. Jesús sagði: „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig.“ (Jóh 14:1) Ritningin er full af lofgjörð til Drottins fyrir trúfesti hans og trúmennsku. „Þeir sem þekkja nafn þitt treysta þér
því að þú, Drottinn, bregst ekki þeim sem til þín leita.“ (Slm 9:11) Traust er sennilega mikilvægasti þátturinn í uppbyggingu sambands. Þetta á við ekki aðeins á milli fólks heldur einnig í sambandi við Guð.